20/09/2019
“Hvað gera grafískir hönnuðir?”
Gera þeir ekki bara auglýsingar? Eitthvað flott? Velja liti og setja myndir á einhvern ákveðin stað? Jú. Líklegast. En það er langt frá því að vera svo einfalt.

Ég fæ oft spurninguna “Hvað gerirðu?”. Það er kannski ekki skrítið, grafískir hönnuðir gera auglýsingar er það ekki? Kannski eitt og eitt lógó eða jafnvel hreyfimynd fyrir kynningarmyndbönd? Nja… Jú. Við gerum það auðvitað. Margt af því sem ég geri dags daglega er ætlað til að kynna vörur, þjónustu og selja eitthvað – alltsvo auglýsingar. En þar með er ekki öll sagan sögð. Þó það geti virst þannig á yfirborðinu eru grafískir hönnuðir oftast ekki að fegra hluti (þó það sé óhjákvæmilegur fylgifiskur), langt í frá. Að vera grafískur hönnuður snýst um að skilja, greina og miðla. Hönnuðurinn greinir upplýsingar, tölur, texta, óskir viðskiptavinarins og viðtakanda og fær þannig yfirsýn yfir það sem gera skal. Aukinn skilningur á verkefninu og markmiðm eykur líkur á að vel heppnaðri lokaafurð.

Sem dæmi má taka merki eða lógó fyrirtækis. Ef við lítum fram hjá því að lógó stendur sjaldnast eitt og sér og er oftast hluti af töluvert stærri og viðameiri mörkun (e. branding) fyrirtækis, þá er ekkert mál að gera lógó. Þú skapar form og velur liti og leturgerð og setur þetta svo allt saman í einn pakka og – BAMM – flott lógó komið. En bíddu við. Fyrir hvern er þetta lógó? Hver er sendandinn? Hver er viðtakandinn? Hver eru gildi fyrirtækisins sem mun nota lógóið? Hvar á þetta lógó að sjást?

Það er þarna sem grunnvinnan kemur sterk inn. Ef grunnvinnan er vel unnin þá ætti að vera auðveldara að velja liti, útlit, form og leturgerð sem skilar því sem fyrirtækið stendur fyrir. Grunnvinnunni má skipta niður í eftirfarandi spurningar:

Hvað? – Hvað erum við að gera?
Hvers vegna? – Hvers vegna erum við að gera það?
Hvernig? – Hvernig ætlum við að gera það?

Að spyrja spurninga er mikilvægt og eiginlega lykilatriði. Svo kemur hönnunin – það er að segja útlitið. Þetta er það sem hönnuðir, bæði grafískir, iðn- og vöruhönnuðir fást við á hverjum degi. Það er þarna sem okkar þjálfun og nám kemur sterkt inn og þetta er eitthvað sem við erum að þróa og læra alla okkar starfsævi.

Eins og einn af flottari hönnuðum samtímans (að mínu mati), Mike Rigby, segir:

Einfaldleiki ofar öllu – samskipti, ekki skreyting.
(e. Simplicity above all else – communication not decoration.)