11/04/2020
Umbúðahönnun
Ég fór í búðina um daginn og tók ákvörðun eingöngu byggða á útliti vörunnar. Þetta fékk mig til að hugsa meira um umbúðahönnun, einn risastóran anga grafískrar hönnunar.

Ég fór í innkaupaleiðangur í vikunni sem leið, sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Markmiðið var að fylla vel á ísskáp, frysti og búr svo að búðarferðir yrðu sem fæstar á þessum undarlegu tímum sem við lifum. Það sem var óvenjulegt við þessa búðarferð var kannski helst það að ég var með fisk og kjúkling á innkaupalistanum mínum. Yfirleitt versla ég ekki kjötmeti og ef ég geri það, þá er það yfirleitt með manninum mínum sem velur það kjöt sem hann langar í. En í þetta skiptið var ég ein. Og stóð fyrir framan frystikistur, fullar af frosnum fiski. Ég vissi bara að ég vildi íslenskan fisk á hagstæðu verði, fyrir utan það voru kröfurnar ekki miklar. En ég stóð þarna í smá stund og komst að þeirri niðurstöðu að lítill verðmunur væri á þeim fisk sem í boði var. Munurinn var hins vegar sá að annar framleiðandinn hafði augljóslega lagt miklu meiri metnað í umbúðahönnun en hinn. Þar sem ekki var munur á verðinu tók ég þær umbúðir sem mér þótti fallegri. 

Það er áhugaverð pæling þarna. Auðvitað er smekkur manna misjafn og fegurð er afstæð, en umbúðahönnun eru samt mikil vísindi og stór partur af kauphegðun fólks stjórnast af útliti og mörkun vörunnar og því loforði sem vörumerkið gefur. Vel heppnuð vöru- og umbúðahönnun miðlar tilfinningu til kaupenda án þess að stafa hana ofan í hann. Ég vil ekki að mér sé sagt að ég sé að kaupa gæðavöru, ég vil finna það. 

Litur er sérstaklega sterkur þáttur í umbúðahönnun. Það nægir að líta á mjólkurfernurnar sem allar eru svipaðar í útliti en eru þó aðgreindar með litakóða. Ímyndaðu þér til dæmis að þú hafir alltaf keypt léttmjólk. Þú ferð út í búð og grípur með þér eina gula fernu á hraðleið í gegnum kælinn og dettur ekki í hug að þetta sé nokkuð annað en léttmjólk. Þú lest líklegast ekki hvað stendur en opnar fernuna og hellir innihaldi hennar ofan á morgunkornið þitt án þess að hika. Ástæðan fyrir því að þú staldrar ekki við og lest innihaldslýsinguna er sú að það er búið að skilyrða okkur sem neytendur til að skilja að gul ferna = léttmjólk. Það væri mjög djarft að hanna umbúðir utan um léttmjólk sem væru grænar. Ekki ómögulegt, en djarft. Því líklegast myndi neytandinn kaupa hana í þeirri trú að það væri súrmjólk, er það ekki? 

Þið þekkið þær, er það ekki?

Það er auðvitað ákveðið ábyrgðarhlutverk sem hvílir á hönnuðum því enginn vill lenda í því sem Gísli Einarsson, fréttamaður á RÚV, lenti í um miðjan marsmánuð. Hann hafði keypt sér lifrarpylsu og var í þann mund að fara að gæða sér á henni þegar hann áttaði sig á að þetta var LÉTT-lifrarpylsa! Og við nánari athugun má svo sannarlega sjá að ekki er mikill munur á pakkningum eða merkingum á venjulegri lifrarpylsu og léttu útgáfunni. Reyndar eru umbúðirnar þær sömu í þessu tilfelli, en þarna vantar herslumuninn á merkimiðum til að sjóndaprir eða tímabundnir lifrarpylsumenn grípi ekki einhverja vitleysu. 

Gísli var vægast sagt ósáttur við SS.

Sjálf á ég mjög erfitt með að muna hvaða vín mér finnst gott. Ég versla því alltaf vín með augunum. Ég kaupi oftast flösku sem mér finnst falleg en ekki flösku sem myndi passa með þeim rétti sem hún er ætluð. En það er bara ég. 

Það eru margir þættir sem saman mynda eina heild í góðri umbúðahönnun. Litir, myndir, myndskreytingar, leturgerðir og stærð umbúða hefur allt sitt að segja. Veltu þessu fyrir þér næst þegar þú ferð í búð og reynir að velja snakk fyrir föstudagskósý. Ef þú myndir velja eingöngu út frá umbúðum, hvað myndirðu velja?